Mögnuð spenna í Ædolkeppninni í gærkvöldi, FH sigurvegarar.

10.06.2006

Harpa Þrastardóttir FH, kom, sá og sigraði í Vöruvals-Ædolkeppni 2006 með lagið Father and son eftir Cat Stevens. Efnileg stúlka þar á ferð. Í öðru sæti var Katrín Rúnarsdóttir og söng hún lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Ást.

Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna þegar dómnefnd Ædolsins var kynnt en hana skipuðu Idolstjarnan Ingó, Arndís Ósk úr framhaldsskólakeppninni og Ólafur Kristján, söngvari Hoffman.

Þjálfarar og fararstjórar börðust í reiptoginu, þar sem varla mátti sjá mun á styrkleika liðanna en úthald fararsjóranna var greinilega meira en þjálfaranna því að þeir voru dregnir langleiðina út í veggi íþróttahúsins.

Selfyssingurinn, Guðmunda Brynja Óladóttir sigraði kappátið með minnsta mögulega mun með því að borða kókobollu og drekka dós af Pepsíi á mettíma.

Ingó tók svo lagið fyrir skvísurnar, sem tóku vel undir og endaði vakan á því að Idolstjarnan skrifaði nafnið sitt á rétt tæpar fimmhundruð myndir.

Allir voru komnir upp í skóla og í koju klukkan 22. Fréttir herma að sólskinsbrosin hafi enn verið á stelpunum í morgun þegar risið var úr rekkjum.