Ýmis atriði sem foreldrar þurfa að hafa í huga fyrir TM mótið í Eyjum:
 
Undirbúningur ferðar:
  1. Farið er fram á að foreldrar sendi börn sín hvorki með sælgæti né peninga. Af hálfu mótshaldara og fararstjóra verður séð fyrir öllum þörfum barnanna í sambandi við mat og drykk.
  2. Ef foreldrar vilja koma einhverju á framfæri vegna krakkanna, t.d. ofnæmi eða eitthvað annað er þeim bent á að tala við fararstjóra eða þjálfara tímanlega
  3. Nauðsynlegur búnaður:
    • Dýna / Vindsæng
    • Svefnpoki/sæng + kodda  
    • Tannbursti+tannkrem
    • Félagsgalli
    • Keppnisskór (keppt á grasi og gervigrasi)
    • Legghlífar
    • Stuttbuxur og sokkar
    • Auka sokka/stuttbuxur
    • Regn og vindgalli
    • Hlý peysa
    • Úlpa – húfa – vettlingar
    • Sundföt
    • Handklæði
    • Nærföt
    • Góður keppnisandi
    • Vatnsbrúsa
    • Klæðnaður fyrir 3 daga
    • Góða skapið
  4. Allur búnaður, hver einstök flík, skal vera mjög vel merkt með nafni,
    síma og félagi. Allur farangur á að vera í einni tösku ekki í plastpokum.
  5. Fáið stelpurnar í lið með ykkur að pakka svo að þær viti hvað þær eru
    með.
  6. Allt sælgæti bannað og ekki er leyfilegt að hafa peninga með í ferðina.
  7. Veistu hver er fararstjóri og símanúmer hans ? Fáið uppgefna GSM síma farastjóra.
  8. Virðið brottfarartíma, mætið tímalega.
  9. Kostnaður á hvern þátttakanda: 
    Það er ákveðið þátttökugjald fyrir hvern þátttanda á mótið, við það bætist staðfestingargjald á hvert lið, kostnaður við fararstjórn, viðbótar matur og einhver ferðakostnaður. Stundum er einhver fatnaður innifalinn í verði. Hvert félag ákveður endanlegt verð á hvern þátttakanda og hvað er innifalið.
  10. Upplýsingamiðstöð:
    Upplýsingamiðstöð TM mótsins í Eyjum verður í Týsheimilinu við Hástein. Þar er yfirstjórn mótsins til húsa, auk þess sem þar er að finna veitingasölu og ritstjórn vefs. Síminn í Týsheimilinu er 481-2060 og er öllum heimilt að láta senda skilaboð þangað.
    Öll lið eiga að vera með GSM síma, þannig að auðveldast ætti að vera að hafa beint samband við sitt lið.
  11. Eftir mótið verður öllum óskilamunum komið fyrir á skrifstou ÍBV í Týsheimilinu og er hægt að hringja þangað í síma 481-2060 og biðja starfsmann ÍBV að leita í bunkanum - við skulum því merkja fatnað barnanna mjög vel.
  12. Ef foreldrar vilja fá fréttir af börnunum þá er þeim velkomið að hringja í fararstjórn á hverjum degi. Þetta er einungis hugsað til að foreldrar geti fullvissað sig um að allt gangi vel, en ekki er gert ráð fyrir að börnin verði á staðnum til að tala við foreldra. 

    Til að fá að vita um árangur í mótinu skal bent á síðu mótsins tmmotid.is

Foreldrar á TM mótinu í Eyjum:

  • Foreldrar eiga líka að mæta tímanlega á alla atburði.
  • Áhersla er lögð á að foreldrar horfi á alla leiki síns félags, ef kostur er.
  • Hvetjum liðið okkar og félagið okkar, ekki einstaka leikmenn og látið dómarann í friði.
  • Fararstjórn hvers félags deilir verkefnum á sína foreldra.
    Ef ykkur vantar verkefni, talið við fararstjórn ykkar félags, ekki vaða í neitt án samráðs við fararstjóra.
  • Ef foreldri þarf að kvarta við mótsstjórn eða gera einhverja athugasemd við framkvæmd mótsins, þá skal fara með þessa kvörtun til yfirfararstjóra viðkomandi félags. Yfirfararstjóri leggur svo málið fyrir mótsstjórn, ef ástæða er til. Virðið úrskurði fararstjóra og mótsstjórnar.
  • Foreldrar fá næg verkefni á svona móti. Vel skipulagður hópur deilir verkefnum á foreldra og gætir þess að allir fái góð frí inn á milli.

 

Foreldrar sem heima sitja: 

  • Ferð á TM mótið í Eyjum er oft með fyrstu ferðum barns að heiman án foreldra.
    Fylgist með öllu mótinu í gegnum vefinn og lofið krakkanum að upplifa fyrstu ferðina að heiman.
  • Myndir og allar upplýsingar um úrslit birtast á vefnum.
  • Ertu með nafn og símanúmer fararstjóra?