Glæsilegu Vöruvalsmóti 2007 lokið

18.06.2007
Vöruvalsmótinu 2007 lauk á laugardaginn og tókst mjög vel. Veðrið lék við mótsgesti nær allan tímann en vel rigndi á keppendur á laugardagsmorgun. Það stóð sem betur fer stutt yfir og var bara rétt til að kæla niður mannskapinn. Stelpurnar voru yfir sig ánægðar með skemmtidagskrá mótsins og sem fyrr var það Ædol keppnin, sundlaugardiskóið og bátsferðin sem stóð upp úr. Stelpurnar voru margar hverjar forvitnar að vita hvað þetta væri eiginlega sem dropaði stöðugt niður á þær inní Klettshelli og þegar Simmi skipstjóri svaraði því til að þetta væri fugladrit varð ávallt uppi fótur og fit. En þegar það var svo leiðrétt komst yfirleitt ró á mannskapinn aftur.

Það er alveg á hreinu að ekkert annað knattspyrnumót fyrir ungar stelpur á Íslandi býður uppá jafn mikla afþreyingu og skemmtidagskrá eins og Vöruvalsmótið í Vestmannaeyjum. Keppendur sem og allir þátttakendur stóðu sig frábærlega vel og viljum við þakka öllum fyrir komuna til Eyja. Sjáumst að ári!