Frábæru Pæjumóti ÍBV og TM lokið

15.06.2008
Þá er frábæru pæjumóti lokið og er óhætt að segja að vel hafi til tekist. Stelpurnar stóðu sig frábærlega og voru sínum félögum til mikils sóma. Mikið var skorað af mörkum og ljóst að einhverjar landsliðsstúlkur framtíðarinnar voru á ferð í Vestmannaeyjum síðustu daga.

Lokahófið fór fram um hádegi í gærdag og þar voru verðlaun veitt fyrir árangur helgarinnar. Stelpurnar frá Snæfellsnesi voru valdar prúðastar og fengu því háttvísiverðlaun KSÍ. Verðlaunin eru veitt fyrir góða hegðun innan vallar og einnig fyrir góða framkomu utan vallar á meðan á mótinu stendur. Snæfellsnes var svo sannarlega vel að þessum verðlaunum komið.

Erna Guðjónsdóttir úr Selfossi hlaut svo Lárusarbikarinn en hann er veittur efnilegasta leikmanni mótsins ár hvert. Erna hlaut bikarinn einnig í fyrra og ljóst að þar er góður leikmaður á ferðinni. Bikarinn er gefinn til minningar um Lárus Jakobsson sem var frumkvöðull Shellmótsins en það mót er haldið ár hver og fer fram eftir tvær vikur.

Það voru svo KR stúlkur sem fögnuðu undir lok lokahófsins því þær fengu risastóran nammipoka með sér heim en hann er veittur því liði sem giskar næst þeirri tölu sem segir til um hversu mörg sælgætisstykki eru í þessum poka.

Að lokum viljum við í mótsstjórn þakka fyrir gott mót og vonandi sjáum við ykkur öll á næsta móti. Öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn til að mótið færi jafn vel fram og raun bar vitni eru færðar bestu þakkir.