Allt að verða klárt
08.06.2006- Nóg um að vera alla helgina hjá stelpunum
Nú stendur undirbúningur sem hæst fyrir Vöruvalsmótið sem hefst kl 8:00 í fyrramálið með innanhúsmóti A-liða, en 20 mínútum síðar hefja B og C lið keppni á Týsvelli. Um 260 stúlkur munu taka þátt í mótinu þetta árið, sem er aukning frá því í fyrra, en auk þess má búast við um 40-50 fararstjórum og þjálfurum sem koma hingað til Eyja í tengslum við mótið.
Eins og áður segir hefjast leikar í fyrramálið og verður leik lokið um kl 18 á morgun. Annað kvöld kl 19:30 verður mótið svo formlega sett og í kjölfarið verður Ædol-keppni Vöruvalsmótsins en þar mun einn keppandi frá hverju félagi syngja á sviði í Íþróttamiðstöðunni. Ingó Idolstjarna mun vera meðal dómara í keppninni og að henni lokinni mun hann taka lagið fyrir stelpurnar og aðra gesti.
Á laugardaginn hefjast leikar klukkan 8:00 og verður leikið allt til kl 16:00 en þá hefst leikur ÍBV og KR í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Að þeim leik loknum er svo komið að grillveislunni og svo leik Landsliðs og Pressuliðs sem er hápunktur mótsins að margra mati. Diskósundið sívinsæla er svo strax að leik loknum og kl 23:00 verður fararstjórum og þjálfurum boðið í skemmtisiglingu um Eyjarnar.
Á sunnudeginum fara fram úrslitaleikir mótsins auk þess sem sigurvegarar verða verðlaunaðir á lokahófinu í Höllinni.
Það er því ljóst að það verður mikið um að vera hjá stelpunum um helgina og vonandi að allir eigi eftir að skemmta sér vel og eiga ánægjulega helgi hér í Vestmannaeyjum.