Erna Guðjónsdóttir: Hlakka til að koma á næsta ári

20.06.2007
Erna Guðjónsdóttir úr Selfossi var valin leikmaður Vöruvalsmótsins árið 2007. Erna sýndi oft á tíðum ótrúleg tilþrif á mótinu og var að sjálfsögðu valin í leik Landsliðsins gegn Pressuliði, þar sem hún spilaði númer 9 með síðarnefnda liðinu. Í þeim leik sáust ótrúlegir taktar hjá stelpunni og var eins og hún væri mörgum árum eldri en 11 ára í fóboltalegum þroska. Var alveg ótrúlega gaman að fylgjast með henni, hreyfingar og skilningur hennar á leiknum var með eindæmum. Við heyrðum aðeins í Ernu gær. Hún sagði þetta hafa verið mjög gott mót.

,,Mér fannst þetta bara alveg rosalega gott mót. Það var svo sem ekkert sem var skemmtilegra en annað, þetta var allt rosalega gaman. Okkur gekk svona þokkalega vel, enduðum í 6. sæti úti en í 3. sæti inni. Ég spila yfirleitt frammi eða á köntunum og er réttfætt. Ég get þó alveg skotið með vinstri líka."

Erna sagðist ekki hafa komið áður til Eyja. ,,Þetta er fyrsta Vöruvalsmótið sem ég fer á og þetta var bara alveg æðislegt. Ég hlakka rosalega til að koma á næsta ári og þá ætlum við okkur að vinna alla titla sem í boði eru."

Þegar við töluðum við hana þá var hún á fullu að undirbúa sig undir leik í Íslandsmótinu sem var að fara að hefjast gegn Keflavík. ,,Þetta er þriðji leikur okkar í Íslandsmótinu í sumar, við unnum Leikni en töpuðum á móti ÍA. Við ætlum okkur að sigra hér á eftir, alveg á hreinu."

Að lokum forvitnuðumst við hvaða lið væri best og hvaða leikmaður. ,,Það er auðvitað Selfoss og svo Barcelona. Uppáhaldsleikmennirnir mínir eru Thierry Henry og Messi," sagði þessi geðþekka stúlka að lokum og ljóst að ef hún verður samviskusöm í framtíðinni og æfir vel þá er ljóst að við höfum hér framtíðarleikmann íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Til hamingju Erna og gangi þér vel í framtíðinni.