Vel heppnuð kvöldvaka í gærkvöldi
Myndir af kvöldinu komnar í frétt
11.06.2010Kvöldvaka pæjumótsins í gærkvöldi sló í gegn hjá þeim 600 keppendum sem voru mættir með liðum sínum. Það var enginn annar en Daddi diskó sem var kynnir kvöldsins. Kvöldvakan byrjaði með innkomu og kynningu liðanna og létu liðin heyrast vel í sér þegar sitt lið kom fram og var kynnt. Lúðrasveit Vestmannaeyja spilaði undir og enduðu á Íslenska þjóðsöngnum. Nokkrir útvaldir héldu stutta ræðu um mótið og má þar nefna Guðbjörgu sem er fulltrúi TM, Gulli Grettis í bæjarstjórn Vestmannaeyja og var það svo varaformann Íþróttabandalags Vestmannaeyja Páll Scheving sem setti mótið.
Pæjumótið í ár er það fjölmennsta frá upphafi með rúmlega 600 keppendum og taka 52 lið þátt frá 16 félögum. Það var svo enginn annar en Jónsi í Svörtum fötum sem tók gítarinn og náði góðri stemmingu með stelpunum sem sungu sig hásar með snillingum Jónsa. Jónsi steig svo í dómarasætið ásamt Ölmu Eðvaldsdóttir og Silju Elsubet þegar liðin tóku þátt í söng og hæfileikakeppni. Það var lið Fylkis sem sigraði keppnina en þær sungu lagið Ást með Ragnheiði Gröndal.