FH vann hæfileikakeppnina og rífandi stemmning hjá Jóni Jónssyni á kvöldvökunni

17.06.2023

Það var rífandi stemmning þegar Jón Jónsson steig á stokk á kvöldvökunni í gærkvöldi og tók nýja mótslagið okkar "Fótbolti út í Eyjum". Það var greinilegt að stelpurnar voru búnar að vinna heimavinnuna sína og læra textann því þær sungu allar með. 

 

Áður en Jón steig á svið voru veitt verðlaun fyrir hæfileikakeppnina, dómararnir áttu erfitt með að gera upp á milli atriða þar sem þau voru öll svo flott og greinilegt að stelpurnar hafa lagt mikinn metnað í atriðin. En eftirfarandi hlutu viðurkenningar:

 

1. sæti FH

Kraftur og öryggi einkenndi atriði FH og bauð það upp á húmor, gleði, bolta og frábæran dans. Atriði sem hafði allt og eru þær verðugur sigurvegari í ár.

 

2. sæti Breiðablik

Fjölbreytni skein í gegn í atriði Blika og fengu mörg listform að njóta sín. Þrátt fyrir fjölbreytnina var atriðið heilsteypt og virkilega flott.

 

3. sæti RKV

Þetta atriði bauð jafnvel uppá flottasta dansinn í ár. Það var mikið um að vera í atriðinu, oft jafnvel þrjár grúbbur í einu, en atriðið hélt samt mjög vel og var heilsteypt og laust við kaótík. Mjög vel gert.

 

Frumlegasta atriðið: Selfoss

Ótrúlega skemmtilegt atriði þar sem texti fékk dómnefnd til að skella upp úr og þemað naut sín mjög vel. Þetta skemmtilega atriði myndi sóma sér á 17. júní dagskrá um land allt.