ÍR vann hæfileikakeppnina og Prettyboitjokko sló í gegn á kvöldvökunni
14.06.2024Þakið ætlaði að rifna af íþróttahúsinu í kvöld þegar Prettyboitjokko steig á svið, stemningin var engu lík og greinilegt að hann er að slá í gegn hjá ungu kynslóðinni þar sem sungið var hástöfum með öllum lögunum hans.
Áður en Prettyboi steig á svið voru veitt verðlaun fyrir hæfileikakeppnina, dómararnir áttu erfitt með að gera upp á milli atriða þar sem þau voru öll svo flott og greinilegt að stelpurnar hafa lagt mikinn metnað í atriðin. En eftirfarandi hlutu viðurkenningar:
1. sæti ÍR
Atriði sem hafði algerlega allt saman. Sett upp sem stuttur leikþáttur þar sem öll hlutverk liða skipta máli. Dansinn flottur og söngurinn frábær. Þær báru líka af í þemanu: Liðið mitt, og eru verðskuldaðir sigurvegarar í þessari spennandi og flottu keppni.
2. sæti FH
Virkilega vel æfður og flottur dans. Svipbrigði stelpnanna voru meira að segja keimlík og virkaði stelpuhópurinn sem ein góð heild. Til marks um það var að í textanum þeirra kom fyrir orðið "vinkonur" sem á einmitt að vera einkennandi fyrir lið á TM Mótinu.
3. sæti KF/Dalvík
Frábært atriði sem hafði nær allt að bera. Söngurinn í atriðinu skilaði sér mjög vel og dansinn flottur.
Frumlegasta atriðið: Víkingur
Víkingsstelpur voru með öðruvísi atriði en aðrir og bitnaði það sannarlega ekki á gæðum þess. Dansinn mjög flottur og ljósin skemmtileg.
Fyndnasta atriðið: Höttur
Bullandi húmor í texta og dansi. Þá skein af þeim hvað þeim sjálfum fannst gaman að sýna atriðið sitt og gerðu þær góðlátlegt grín af bæði Herjólfi og sjálfum sér.