ÍR vann hæfileikakeppnina - Aníta Rós - NUSSUN og HUGO
13.06.2025Nussun og Hugo tróðu upp á kvöldvökunni og náðu sannkallaðri Þjóðhátíðarstemmningu í stelpurnar, mikið dansað og ekkert nema gleði.
Áður en þeir stigu á stokk þá kom fram leynigestur, Aníta Rós Þorsteinsdóttir, ásamt dönsurum. En hún hefur í samstarfi við Jóa Útherja samið lag og dans fyrir stelpurnar í íslenska landsliðinu. Þær tóku lagið og kenndu stelpunum dansinn, sem þær geta svo haldið áfram með þegar stelpurnar hefja leik á EM í júlí.
Kvöldvakan hófst með því að veitt voru verðlaun fyrir hæfileikakeppnina, dómararnir áttu erfitt með að gera upp á milli atriða þar sem þau voru öll svo flott og greinilegt að stelpurnar hafa lagt mikinn metnað í atriðin. En eftirfarandi hlutu viðurkenningar:
1. sæti ÍR
Það er áhætta tekin með leikmunum því þeir verða að stækka atriðið. Það gerðist svo sannarlega hjá sigurliðinu í ár. Myrkur hugarheimur dómarans vakti gæsahúð dómnefndar og svo sprakk atriðið út í frábærum dansi sem einkenndist af góðri samhæfingu og krafti. Í raun tókst stelpunum að búa til smásögu í atriði sínu og eru vel að því komin að hreppa fyrsta sætið. Æðislegt atriði! Fyrsta sætið í ár fær því (trommur) ÍR!
2. sæti ÍA
Hér fór saman samhæfing, kraftur, gleði og frumleiki enda vel gert að lenda í 2. sæti í jafn sterkri keppni og var í ár. Þemað komst vel til skila og í öðru sæti í ár er: ÍA!
3. sæti FH
Hér var vel unnið út frá þemanu og innihélt frumsaminn texti fallegan boðskap. Heildarbragur atriðisins góður og skilar liðinu á pall. 3. sætið í ár fær: FH!
Frumlegasta atriðið: Fram
Stelpurnar notuðu fjölmarga leikmuni í atriðinu sínu, ásamt því að setja saman flottan dans og atriði með góðan heildarbrag. Borðar, gleði og fleira. Endirinn var skemmtilegur þegar boltum var dúndrað uppí stúku. Frumlegasta atriðið í ár er: Fram
Flottasti dansinn: KA
Ýmsir þættir þurfa að vinna saman til að komast í efstu þrjú sætin og í þetta atriði vantaði í raun aðeins meira með þemað. Hins vegar vildi dómnefnd veita lðinu verðlaun þar sem leikgleðin var afar heillandi og fengu allar stelpurnar stórt hlutverk í atriðinu, þrátt fyrir nokkuð mikinn fjölda. Dansinn var síðan það flottur að við bjuggum til sérstök verðlaun í ár fyrir flottasta dansinn og hann fer norður í land. Flottasti dansinn: KA!